Síminn hefur hafið uppbyggingu á langdrægu 3G farsímakerfi sem mun þjóna landsbyggðinni og miðunum í kringum strandlengjuna. Ætlunin er að það komi í staðinn fyrir núverandi langdrægt farsímakerfi fyrirtækisins, hið svokallaða NMT kerfi. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir að að kerfið sé frábrugðið því 3G kerfi sem nú sé fyrir hendi að því leyti að það byggi á nýrri tækni sem auki langdrægni sendanna margfalt.

„Þetta er framhald á þeirri uppbyggingu þriðju kynslóðar kerfis sem við höfum þegar hafið, en byggir á annarri tíðni, sem  gerir það mun langdrægara. Það er meginstyrkleiki þessarar þjónustu, að notendur geta treyst því að geta notað sömu farsímana og áður, sem verða þá með þessu tíðnibandi,“ segir hann. Allir símar sem verða seldir frá ákveðnum tímapunkti í náinni framtíð verða þessum kostum gæddir. „Það er þegar til mikið magn síma með þessum eiginleikum sem við munum taka til sölu næstu mánuðina,“ segir Sævar. Þeir 3G símar sem nú eru á markaðinum munu áfram virka á þeim svæðum sem þeir virka núna.

Sævar segir að með nýja kerfinu komi háhraða gagnaflutningsnet sem nái yfir allt landið. „O  þá er hægt að vera með sambærilegan hraða og við þekkjum úr ADSL kerfinu hvar sem maður er staddur á landinu. Þetta er t.a.m. ekki bara spurning um að horfa á sjónvarp í farsíma, heldur mun maður t.d. geta farið með ferðatölvuna sína í sumarbústaðinn, hvar sem hann er á landinu, og tengst netinu eins og heima hjá sér,“ segir hann. Sævar segir aðspurður að fyrirtækið gefi ekki upp kostnað við þetta nýja kerfi. „En þetta er auðvitað mikil fjárfesting, en við sjáum mikil tækifæri í gagnaflutningum; að geta tengt allt landið og þjónustað alla landsmenn. Við ætlum að setja upp 218 senda á þessu ári og næsta og þar af er stærsti hlutinn 3G uppbygging, þannig að þetta er veruleg fjárfesting fyrir fyrirtæki eins og Símann,“ segir hann. Uppsetningu á höfuðborgarsvæðinu á Akureyri og Leifsstöð er nú að mestu lokið. Búið er að setja upp senda á Suðurlandi og nú er verið að stækka sendisvæði á suðvesturhorninu, með áherslu á sumarbústaðasvæðin í Grímsnesi, Skorradal og Svínadal. Þjónustan verður í boði fyrir viðskiptavini Símans í lok sumars.