Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og eiginkona Bill Clinton, nýtur mests stuðnings meðal kjósenda demókrataflokksins sem næsta forsetaefni flokksins, samkvæmt nýrri könnun. Alls vilja 65% kjósenda flokksins að hún verði frambjóðandinn í kosningunum 2016, en næstur í röðinni er varaforsetinn Joe Biden, með stuðning um 13% kjósenda.

Aðrir hugsanlegir frambjóðendur njóta mun minni stuðnings kjósenda, samkvæmt frétt Bloomberg. Má þar nefna að ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo mælist, með 4% fylgi og að ríkisstjóri Maryland, Martin O'Malley, ríkisstjóri Massachusetts, Deval Patrick og öldungadeildarþingmaðurinn Mark Warner eru með 1% fylgi eða minna.