Áfengisgjöld á Íslandi eru þau langhæstu í Evrópu samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda hefur aflað. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu FA . Í raun hefur félaginu ekki tekist að finna neitt land í heiminum þar sem áfengisskattar eru hærri. „Engu að síður er í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 gert ráð fyrir að áfengisgjöld hækki um 4,7%. Þar af er 2,5 prósentustiga hækkun umfram verðbólgu,“ segir meðal annars í greininni.

Hærra en í Noregi

Ef gert er ráð fyrir að boðuð hækkun hafi tekið gildi hér á landi sést að Ísland sker sig algjörlega úr að mati FA. „Eingöngu Noregur er nálægt Íslandi í álagningu áfengisskatta. Styrking gengis krónunnar og áformuð hækkun áfengisgjaldsins gerir að verkum að áfengisgjöld á alla flokka áfengis eru nú hærri en í Noregi, þegar reiknað er yfir í evrur.

Þrátt fyrir að virðisaukaskattur á áfengi sé nú lægri á Íslandi (11%) en víðast hvar í Evrópu er samanlögð skattlagning ríkisins á áfengi langtum hærri hér en í öllum Evrópulöndum nema Noregi,“ er einnig tekið fram.

Í raunverulegum dæmum sem FA hefur reiknað kemur fram að nái hækkunin fram að ganga mun ríkið taka til sín 94% af verði „ódýrrar“ vodkaflösku eftir áramót og 84% af verði „ódýrs“ léttvínskassa.

Skattlagning út úr öllu korti

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í fréttinni að skattlagnin á áfengi sé augljóslega komin út úr öllu korti þegar neytandinn er farinn að greiða um og yfir 90% af verðinu í ríkissjóð.

„Þetta er tíunda hækkun áfengisgjalda frá hruni. Á þeim tíma hafa þau rúmlega tvöfaldast. Eru engin takmörk fyrir því hversu langt stjórnvöld telja sig geta gengið í skattlagningu á einni neysluvöru? Hversu lengi láta neytendur bjóða sér þetta?“ er enn fremur haft eftir honum.