Langholtskirkja á í miklum fjárhagserfiðleikum og stefnir að óbreyttu í að safnaðarheimili kirkjunnar verði selt til að greiða upp skuldir. Húsnæði safnahðarheimilisins er afar skuldsett, eftir því sem fram kemur í DV í dag.

Ein ástæða versnandi fjárhagsstöðu er að úrsögnum úr Kirkjunni hefur fjölgað að undanförnu. Þá segir að ekki sé heimilt að veðsetja kirkjubygginguna sjálfa og því muni ekki þurfa að selja hana. Aðrar eignir geti hugsanlega verið seldar.

Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur í Langholtskirkju, segir aðra skýringu á alvarlegri stöðu kirkjunnar vera þá að skuldir hafi stökkbreyst í bankahruninu. „Allar okkar áætlanir brustu,“ segir hún.