Eignarhaldsfélagið Langisjór hefur keypt allt hlutafé í Ölmu íbúðafélagi, en kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Alma hefur síðustu ár verið í eigu fagfjárfestasjóðs í rekstri GAMMA Capital Management.

Búist er við að kaupin gangi formlega í gegn í lok næsta mánaðar en kaupverðið er talið nema 11 milljörðum króna. Kaupin, sem voru fjármögnuð af Arion banka, voru tilkynnt til Samkeppniseftirlitsins síðastliðinn föstudag, samkvæmt heimildum Markaðarins .

„Alma hefur verið í fararbroddi við mótun á faglegum og traustum leigumarkaði á Íslandi. Jákvæðar breytingar hafa orðið á markaðnum síðustu ár og hafa aðstæður færst nær því sem við þekkjum frá löndunum í kringum okkur. Nú þegar félagið er komið í hendur öflugra langtímafjárfesta með skýra framtíðarsýn gefst okkur tækifæri til að halda áfram að byggja félagið upp með það að markmiði að vera fyrsti kostur þeirra sem kjósa þann sveigjanleika og þau þægindi sem felast í því að leigja húsnæði, en þó með því búsetuöryggi sem fylgir því að eiga húsnæði,“ er haft eftir Maríu Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóra Ölmu, í fréttatilkynningu . „Núverandi viðskiptavinir ættu ekki að finna fyrir neinum breytingum á þjónustunni með nýju eignarhaldi félagsins.“

Alma íbúðafélag var stofnað árið 2014 og rekur rúmlega 1.100 íbúðir sem eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi, Akranesi, og víðar um land. Hjá Ölmu starfa 18 starfsmenn í fullu starfi, auk fjölda verktaka víðsvegar um landið.

Langisjór ehf. er fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Langisjór er móðurfélag nokkurra fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar eru Mata hf., Matfugl ehf. og Síld og fiskur ehf.

Þá er fjárfestingarfélagið Brimgarðar einnig dótturfélag Langasjávar. Brimgarðar er meðal stærstu hluthafa fasteignafélaganna í Kauphöllinni. Félagið er stærsti hluthafi fasteignafélagsins Eikar en hlutur félagsins nemur 15,6%. Brimgarðar eiga einnig 2,3% eignarhlut í Reitum og 1,7% hlut í Regin.

„Með kaupunum á Ölmu lítum við til framtíðar. Rekstur og útleiga fasteigna verður áfram kjarnastarfsemi félagsins og á komandi árum ætlum að hjálpa til við að tryggja framboð á hagkvæmu og góðu íbúðarhúsnæði með þátttöku í fasteignaþróun og byggingu fjölbýlishúsa,” segir Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Langasjávar.