Af stóru viðskiptabönkunum þremur hafði Arion banki langmesta arðsemi eigin fjár á fyrstu níu mánuðum ársins. Bankinn hagnaðist um 25,4 milljarða króna á tímabilinu og eigið fé bankans í lok síðasta ársfjórðungs nam 175,8 milljörðum króna. Á ársgrundvelli var arðsemi eigin fjár Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 19,4%.

Landsbankinn hagnaðist litlu minna en Arion banki á fyrstu níu mánuðum ársins, eða um 24,4 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár Landsbankans á tímabilinu var hins vegar aðeins 12,9% á ársgrundvelli, enda hefur Landsbankinn mun meira eigið fé en Arion banki.

Íslandsbanki hafði minnstan hagnað og sömuleiðis lægstu arðsemi eigin fjár á fyrstu níu mánuðum ársins. Bankinn hagnaðist um 16,7 milljarða og á ársgrundvelli var arðsemi eigin fjár bankans 11,5% á ársgrundvelli.

Arðsemi Arion banka var betri á fyrstu níu mánuðum þessa árs heldur en hún var í fyrra. Á síðasta ári var arðsemi eigin fjár hjá Arion banka 17,6%. Arðsemi eigin fjár Landsbankans batnar einnig, en á síðasta ári var hún 11,9%. Arðsemi eigin fjár hjá Íslandsbanka dalar hins vegar á milli ára, en á síðasta ári var hún 12,3%.