Nauðsynlegt er að stjórnvöld aflétti takmörkunum og komi þannig í veg fyrir frekari samfélagsleg áhrif, óþarfa tjón í atvinnurekstri og aukin ríkisútgjöld. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Umsögn VÍ var skrifuð áður en tilslakanir um sóttkví voru kynntar fyrr í dag.

Viðskiptaráð bendir á að vægara afbrigði veirunnar og víðtæk bólusetning hafi breytt eðli faraldursins sem kalli á breytta nálgun stjórnvalda og dragi jafnframt úr þörf á aðgerðum á borð við sjálft frumvarpið.

Samtökin leggja áherslu á að umræða um stuðningsúrræði sé sett í samhengi við frelsisskerðingar og nauðsyn þeirra hverju sinni. Umræðan hafi lítið ratað til Alþingi og hvetur VÍ nýkjörið þing til að taka meiri þátt í umræðum og ákvarðanatökum sóttvarnaraðgerða. Auk þess hafa stjórnvöld skort langtímastefnumótun um viðbrögð við faraldrinum. Nýlegt dæmi um skort á fyrirsjáanleika er þegar gildandi reglugerð um sóttvarnatakmarkanir var framlengd óbreytt en aðgerðir hertar þrem dögum síðar.

Að lokum telur VÍ að nefndin ætti að taka réttlætingarástæður fyrir núgildandi sóttvarnaraðgerðum til skoðunar, og þá þörf sem þær skapa fyrir efnahagsleg inngrip. Nágrannaþjóðir hafi stigið skref til afléttingar þrátt fyrir hærra nýgengi smita en á Íslandi. VÍ telur að sóttvarnaraðgerðir gangi lengra en nauðsyn er til og þeir sem bera pólitíska ábyrgð á takmörkunum þurfa að taka af skarið.