Seðlabanki Evrópu gerir ekki ráð fyrir að ná verðbólgumarkmiði sínu fyrr en á árinu 2018. Þetta kom fram í ræðu Mario Draghi, bankastjóra seðlabankans eftir fund peningastefnunefndarinnar í gær.

Bankinn lækkaði verðbólguspá sína og gerir ráð fyrir 0,1% verðbólgu á þessu ári og að verðbólga verði komin í 1,6% árið 2018. Yfirlýst markmið bankans er 2% verðbólga. Í fyrri spá bankans var gert ráð fyrir 1% verðbólgu á þessu ári að verðbólga myndi ná upp í 1,6% á næsta ári, en ekki eftir tvö ár eins go í nýrri spá bankans.

Meðal þess sem kom fram í ræðu Mario Draghi var að hann bjóst við að orkuverð muni hækka í seinni hluta þessa árs. Hann sagði einnig að laun þyrftu að hækka til að ýta undir verðbólgu.

Samkvæmt fréttastofu Bloomberg þá virðist Draghi ekki lengur hafa áhyggjur af því að verðbólga muni ekki koma, en hann sé þó ekki jafn vongóður um að hún komi á næstunni.