Búast má við að afgangur af vöruskiptum verði nokkru minni í ár en í fyrra, að mati Greiningar Íslandsbanka . Deildin telur útlitið þó alls ekki slæmt, miklar sveiflur séu í mánaðartölum um vöruskipti, sem jafnframt eru endurskoðaðar reglulega aftur í tímann. Samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gær nam afgangur af vöruskiptum fjórum milljörðum króna í febrúar. Það er 2,1 milljarði minna en í febrúar árið 2012. Gangi þetta eftir mun afgangur af vöruskiptum við útlönd nema 11,1 milljarði króna sem er 6,2 milljörðum minna en fyrir ári. Jafn slakar tölur hafa ekki sést síðan í byrjun árs 2009.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að mestu muni um að útflutningsverðmæti sjávarafurða, sem nam 35,1 milljarði króna, dróst saman um 9,7 milljarða á milli ára. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hafi ekki verið minna síðan 2011. Jafnframt dregst útflutningur iðnaðarvara talsvert saman en verðmætið hefur ekki verið minna í upphafi árs síðan í ársbyrjun 2009. Óhagstæð þróun álverðs hefur sitt að segja um minni útflutningsverðmæti iðnaðarvara, að sögn Greiningar Íslandsbanka sem bakslag í loðnuveiðum hafi líka áhrif.