Lítið sem ekkert líf er í kjaraviðræðum Eflingar og Reykjavíkurborgar, og mikið ber í milli að sögn samningsaðila. Auk launahækkana í takt við lífskjarasamningana svokölluðu – sem samninganefnd borgarinnar vinnur út frá – hljóðar kröfugerð Eflingar upp á breytingar á svokallaðri tengireglu starfsmats, sem myndi hækka laun undir tæpum 450 þúsund krónum um frá 22 til 52 þúsund, mest þau sem lægst eru. Þá vill stéttarfélagið viðbót við desemberuppbót sem nemur á fjórða hundrað þúsund krónum.

Ótímabundið verkfall 17. Febrúar
Náist ekki samningar hefur samninganefnd Eflingar lagt til vinnustöðvanir á völdum dögum á fyrri hluta febrúar, og svo ótímabundið frá 17. sama mánaðar. Félagsmennirnir sem um ræðir eru um 1.800 talsins, þar af 1.000 leikskólastarfsmenn, og 78% konur.

Kosið verður út vikuna, en þegar hafði tæpur þriðjungur félagsmanna kosið um á miðvikudag, sólarhring eftir að kosningin hófst, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, telur félagsmenn tilbúna í aðgerðir. „Þessi mikla þátttaka í atkvæðagreiðslunni segir mér að fólk sé bara mjög tilbúið til að fara í verkfall.“

Tilbúin í viðræður sé þeim mætt af „sanngirni og samningsvilja“
Á opnum samningafundi Eflingar á miðvikudag sagði Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri að samninganefndin væri „opin fyrir viðræðu“ um kröfuna um desemberuppbótina. Sólveig segir grunnhugmyndina um breytingar á tengireglu starfsmats ófrávíkjanlega, en ræða megi útfærsluna og upphæðirnar. „Hugmyndafræðin að baki þeirri kröfu er ófrávíkjanleg, en ef okkur er mætt af sanngirni og samningsvilja erum við sannarlega tilbúin í viðræður í þeim tilgangi að ná góðum samningi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .