Þorsteinn Örn Guðmundsson er framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) sem er samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg. Nánar tiltekið einblínir Meet in Reykjavík á svokallaða MICE-ferðamenn, þar sem MICE stendur fyrir „Meetings, Incentives, Conferences and Events“ eða fundi, hvataferðir, ráðstefnur og viðburði.

Meet in Reykjavík var stofnað í upphafi ársins 2012 og þar vinna saman bæði einkaaðilar og opinberir aðilar. Meðal aðildarfélaga má nefna Icelandair Group, Hörpu, Landsbankann, Reykjavíkurborg, Íslandsstofu, ráðstefnuskrifstofur, ferðaskrifstofur og fjölbreytta þjónustuaðila. Stofnaðilarnir voru 15 talsins en aðildarfélagar Meet in Reykjavík eru 46 í dag.

Hvernig sérðu ferðaþjónustuna þróast?

„Þetta hefur verið mikil vegferð frá því fyrir sex árum – þegar við fengum eldgos, það var fækkun í ferðaþjónustu, við glímdum við efnahagslega erfiðleika á borð við mikið atvinnuleysi – og þar til í dag. Atvinnuleysi var umtalsvert og töluvert mikið af innviðum sem hægt var að nýta í ferðaþjónustu: hótelnýting var ekki góð, veturinn var tiltölulega illa nýttur og við vorum með fullt af tómu húsnæði eftir hrun sem hægt var að breyta tiltölulega hratt í hótel. Að auki er Airbnb komið með um 9.500 rúm í Reykjavík þannig við höfðum mikla auka framleiðslugetu, sérstaklega í gistingu og mögulegu starfsfólki. Mér finnst það mjög góð samlíking að tala um „manninn sem bjargaði Íslandi“ , sem er ferðamaðurinn, því þessi vegferð frá 2010 og þar til í dag hefur skilað okkur gríðarlegri breytingu með jákvæðum hagvexti. Það þýðir líka að árlegur fjöldi gesta til Íslands hefur meira og minna stýrst af eftirspurninni en skyndilega breytast aðstæður og við stöndum á tímamótum. Gestafjöldi er ekki bara háður því hverjir vilja koma heldur er hann að verða hlutfallslega meira háður því hvað við getum boðið upp á og hversu hratt við getum þróað það. Í þessari aðstöðu er enn mikilvægara að við hugsum hvernig blöndu við viljum fá af ferðamönnum. Það er alveg ljóst í mínum huga að við getum ekki teiknað þennan vektor sem er frá 2010 til 2016 áfram inn í framtíðina af því að grunnaðstæður eru breyttar. Við erum komin í aðra aðstöðu og til þess að fá áframhaldandi jafn jákvæða breytingu verðum við að gera eitthvað nýtt og öðruvísi. Framleiðniaukning úr atvinnuleysi og vannýttum innviði yfir í lágt atvinnuleysi og vel nýtta innviði er afar jákvæð en það er áskorun að halda áfram á sömu vaxtarbraut sem krefst áherslubreytinga.“

Langtíma stefnumörkun mikilvæg

Hvað er hægt að gera til að halda áfram jákvæðri þróun og stuðningi við hagvöxt?

„Til að nýta betur auðlindina og fá betri blöndu þurfum við að einblína á tvo hluti: Annars vegar þarf að einblína á langtíma stefnumótun og hafa skýra mynd af því hvar við viljum vera eftir t.d. 20 ár. Við þurfum síðan að varða þann veg með skýrum aðgerðum sem snúast um að ná þeim árangri, við breytum t.d. ekki blöndunni á tegund ferðamanna bara með lönguninni einni saman. Fyrst verðum við að vísu að vita hvað við viljum, svo þurfum við að gera það sem við getum til þess að hafa áhrif og það eru nokkur handföng þar. Til dæmis að opinber markaðssetning, reglur og löggjöf miði að því að styðja við þá mynd sem fólk vill sjá til langs tíma, hver sem hún er. Hins vegar eru beinar aðgerðir á borð við klósett, göngustíga, öryggismál, að takast á við svarta starfsemi og ná góðum strúktúr í kringum Airbnb. Þetta eru verkefni sem eru í raun alls ekki stefnumarkandi heldur eitthvað sem mikilvægt er að framkvæma og gera vel. Þarna aftur á móti herðir skóinn og umræðan fer oft að snúast um verkefni en ekki stefnumörkunina og hvað skiptir okkur mestu máli í framtíðinni. Við erum búin að sjá mörg jákvæð skref á borð við Stjórnstöð ferðamála, en í mínum huga er engu að síður oft einblínt frekar á verkefnin sem þarf að leysa en stefnumarkandi heildarsýnina á hvar við nákvæmlega viljum vera eftir t.d. 20 ár.“

Nánar er rætt við Þorstein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .