Þeir sem hafa verið atvinnulausir í tólf mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á fjórða ársfjórðungi 2014 höfðu um 1.000 manns verið langtímaatvinnulausir eða 0,5% vinnuaflsins samanborið við 2.000 manns eða 1,1% vinnuaflsins á sama ársfjórðungi 2013. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um vinnumarkað á fjórða ársfjórðungi 2014.

Þar kemur fram að á tímabilinu hafi 185.700 manns á aldrinum 16 til 74 ára verið á vinnumarkaði sem jafngildir 80,9% atvinnuþátttöku. Frá fjórða ársfjórðungi 2013 hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 1.100 en atvinnuþátttakan var nánast sú sama og á sama ársfjórðungi 2013.

Þá voru að meðaltali 7,700 manns án vinnu og í atvinnuleit á ársfjórðungnum eða 4,1% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 3,9% hjá konum og 4,3% hjá körlum.

Samanburður fjórða ársfjórðungs 2014 við sama ársfjórðung 2013 sýnir að atvinnulausum fækkaði um 700 og hlutfallið lækkaði um 0,4 prósentustig.