Á fjórða ársfjórðungi 2012 höfðu 29,3% allra atvinnulausra verið án atvinnu í eitt ár eða lengur. Er þetta töluvert jákvæðari tala en á þriðja ársfjórðungi, en þá höfðu 35,6% atvinnulausra verið án vinnu í eitt ár eða lengur. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Kemur þetta fram í nýju hefti Hagtíðinda frá Hagstofunni.

Á fjórða ársfjórðungi 2012 voru að jafnaði 176.800 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði og fjölgaði um 0,5% frá sama tíma ári áður eða um 800 manns. Jafngildir þetta 78,8% atvinnuþátttöku. Fjöldi fólks utan vinnumarkaðar var 47.600, sem er fækkun um 1% frá fyrra ári eða um 500 manns. Atvinnuþátttaka karla var 81,4% og kvenna 76,1%.

Atvinnulausum fækkaði

Á fjórða ársfjórðungi 2012 voru að meðaltali 8.400 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 4,7% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 5,4% hjá körlum og 4% hjá konum. Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2012 var 168.400 manns eða 75% af mannfjölda. Hlutfall starfandi karla var 77% og starfandi kvenna 73,1%.

Þegar á heildina er litið fækkaði atvinnulausum um 2.200 frá fjórða ársfjórðungi 2011. Atvinnulausum konum fækkaði um 1.200 og atvinnulausum körlum um 1.000. Starfandi fjölgaði á þessu tímabili um 3.000.