Verg landsframleiðsla í Japan féll um 3,4% milli janúar og mars síðastliðnum eftir raskanir á framleiðslukeðjum af völdum heimsfaraldursins. Útflutningur Japans lækkaði um 6% á fyrsta ársfjórðungi og hefur ekki fallið hraðar frá hamförunum vegna jarðskjálftans í mars 2011.

Verg landsframleiðsla Japana lækkaði um 7,3% á síðasta ársfjórðungi síðasta árs og af því leiðir að Japan komið í efnahagskreppu í fyrsta sinn frá árinu 2015.

Greiningaaðilar hafa varað við því að efnahagshorfurnar séu enn verri en þessar tölur gefa til kynna. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, lýsti ekki yfir neyðarástandi fyrr en í apríl síðastliðnum. Það á því eftir að koma í ljós hver heildaráhrif heimsfaraldursins verður á einkaneyslu sem vegur um helming af vergri landsframleiðslu Japans.

Hagfræðingar sem töluðu við The Times spá 22% samdrætti í vergri landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi ársins sem myndi gera þessa niðursveiflu að mestu efnahagslægð Japan frá upphafi mælinga.

Í október síðastliðnum hækkaði neysluskatturinn í Japan úr 8% í 10% í tilraunum stjórnvalda til þess að bregðast við háum skuldum ríkissjóðs. Brúttó skuldir ríkissjóðs eru um 240% af vergri landsframleiðslu Japans.

„Japanir eru alltaf lengi að koma hlutum í framkvæmd. Örvunaraðgerðir stjórnvalda munu ekki koma fram fyrr en í seinni hluta annars ársfjórðungs og á þriðja ársfjórðungi. Það mun taka Japani tvö ár að ná sér af þessari kreppu,“ sagði Martin Schulz, aðalhagfræðingur Fujitsu í viðtali við The Times.