Að minnsta kosti 20% starfsmanna á vinnumarkaði í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Japan vinna 50 stunda vinnuviku eða lengri. Hæst er þetta hlutfall í Japan eða 28%. Til samanburðar vinna 10% starfsmanna í Evrópu 50 tíma eða meira á viku, flestir í Bretlandi eða 15,5% en fæstir í Hollandi eða 1,4%. Þetta kemur fram í könnun sem Alþjóðavinnumálastofnunin gerði og greint er frá inni á heimasíðu VR.

Þar kemur fram að niðurstöðurnar sýna að í löndum þar sem takmarkanir á lengd vinnuvikunnar eru fáar, s.s. í Bandaríkjunum, er meiri hætta á óhóflegum vinnutíma en annars staðar. Könnunin sýnir einnig að munurinn á óskum launafólks um vinnutíma og raunverulegum vinnutíma þeirra er mikill, tæplega helmingur launafólks í Evrópu sem vinna færri en 20 stundir á viku vill auka við sig vinnu en 81% þeirra sem vinna 50 tíma eða fleiri vilja styttri vinnuviku.