Hjá 3X Technology á Ísafirði, sem markaðssetur vörur sínar í samstarfi við Skagann á Akranesi undir vörumerkinu Skaginn 3X, er vinnudagurinn langur.

Í húsnæði 3X Technology við Sindragötuna sem er við höfnina á Ísafirði er dagurinn tekinn snemma, en flestir starfsmenn mæta til vinnu klukkan 7.30 að morgni.

Á vinnustaðnum starfa um 50 manns við framleiðslu á alls kyns sérhæfðum tæknibúnaði fyrir fiskiskip og sjávarútveg. Á dögunum leit ljósmyndari Viðskiptablaðsins í heimsókn þar sem hann fékk leiðsögn Karls Kristjáns Ásgeirssonar rekstrarstjóra.

Á vinnustaðnum starfa fyrir utan almennt skrifstofufólk tækni- og verkfræðingar sem starfa við vélahönnun. Svo eru forritarar, sem vinna að því að forrita búnaðinn, rafvirkjar og rafiðnfræðingar, rennismiðir, stálsmiðir og vélvirkjar.

Karl Kristján segir dagana geta verið misjafna því í upphafi hvers verkefnis eru haldnir sérstakir fundir til að fjalla um viðkomandi verkbeiðni og verkefninu er ýtt úr vör.

Að öðru leyti eru svo fastir fundir í hverri framleiðsludeild, eða eins og Karl kallar það, hverri sellu fyrir sig, klukkan 9, 9.15 og 9.30.

Sella 1 er aðallega í því að smíða færibönd, sella tvö í smíði ýmiss konar smátækja og sella 3 smíðar snigiltankana sem fyrirtækið hefur hlotið mikið lof fyrir, en þeir sjá um ofurkælingu á fiskinum um borð í skipunum þannig að ekki þarf ís til.

Síðan er kaffi klukkan 9.40 og svo fundur í tæknideild klukkan 10. Allir þessir fundir eru standandi fundir sem taka í mesta lagi 10 til 15 mínútur, en þó er farið yfir verkefnin hjá hverjum og einum og ef það eru einhver vandamál eru þau rædd saman í hóp þannig að besta lausnin finnist.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Witold Wielgosz við vinnu sína.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Farið yfir verkefni dagsins með tæknimönnum á verkfundi. Karl Ásgeirsson, Þovarður Benediktsson, Anton Helgi Guðjónsson, Ragnar Ingi Kristjánsson og Jakob Tryggvason.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Eygló Harðardóttir bókari og Jóhann Bæring Gunnarsson verkefnisstjóri á skrifstofunni.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Magnús Einar Magnússon mundar slípirokkinn.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ívar Már Valsson, Halldór Óli Hjálmarsson og Ragnhildur Einarsdóttir á renniverkstæðinu.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ragnhildur Einarsdóttir á renniverkstæði 3X Technology.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Gunnar Sigurðsson í plötuvinnslunni.