Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 að 500 milljóna evra neyðarlán Seðlabanka Íslands til Kaupþings þann 6. október 2008 hafi verið lokatilraun til að bjarga Kaupþingi. Hann sagði jafnframt að það væru „ómerkilegir stjórnmálamenn“ sem reyndu að gera sér mat úr samtali sem hann átti um lánveitinguna við Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, þennan sama dag.

Kröfur hafa verið uppi um að símtal Geirs við seðlabankastjóra verði gert opinbert, en Geir hefur ekki gefið leyfi fyrir því. Að sögn Geirs liggur fyrir úrskurður um að þagnarskylduákvæði eigi við um þetta samtal og eftir því verði Seðlabankinn að fara.

Þá sagði Geir að Seðlabankinn hafi haft fulla heimild til að veita lánið umrædda. Mikilvægt sé að meta lánveitinguna í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru á þeim tíma, en ekki þeirra aðstæðna sem eru uppi í dag.