*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 13. apríl 2019 13:45

Lánleysi og Íslandslán

Færri valkostir er ekki svarið, fjölbreytt vöruúrval á fasteignalánum er neytendum til bóta

Örn Arnarson

Eitt af baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum var að greiða fyrir aðgengi ungs fólks að fasteignamarkaðnum ásamt að draga úr vægi verðtryggingar í efnahagslífinu. Lendingin var að banna svokölluð Íslandslán - verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára - frá og með næstu áramótum. 

Þessi lán hafa notið vinsælda vegna þess að þau fela í sér lægstu greiðslubyrðina fyrstu árin. Með því að takmarka lengd slíkra lána við 25 ár er verið að þrengja að möguleikum ungs fólks til þess að fjármagna íbúðarkaup. Stytting hámarkslána verðtryggðra jafngreiðslulána niður í 25 ár þyngir greiðslubyrði um rúmar 13 þús.kr. á ári af hverri milljón króna sem tekin er að láni. Það samsvarar tæpum 400 þús.kr. á ári af 30 m.kr. láni, sem er algeng lánsfjárhæð við fyrstu kaup. Það gætu verið ein til tvenn mánaðarlaun eftir skatt hjá stórum hluta fyrstu íbúðarkaupenda. 

Íslandslán geta verið hagstæður kostur fyrir ungt fólk sem er að hefja sinn starfsferil og að kaupa sína fyrstu eign. Sögulega séð hefur launavísitalan hækkað umfram verðlagsvísitöluna. Að sama skapi getur ungt fólk sem er að hefja starfsferil sinn vænst þess að hækka í launum með aukinni starfsreynslu og frama. 

Sú mikla umbreyting sem hefur verið gerð á stöðu neytenda á lánamarkaði á undanförnum árum felur meðal annars í sér að kostnaður við að endurfjármagna lán hefur minnkað verulega. Skýr merki um þetta sjást á lánamarkaði á liðnum árum. Það kann í sumum tilfellum að henta ungu fólki að taka svokölluð Íslandslán þegar það er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaðnum. Með vaxandi tekjum og auknu efnahagslegu svigrúmi er auðvelt að endurfjármagna lánið og færa sig í hentugra lánaform. 

Fjölbreytt vöruúrval á fasteignalánamarkaði - hvort sem um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán – er neytendum til hagsbóta. Það að fækka valkostunum er það ekki. 

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Stikkorð: Endahnútur
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is