Breska fjárfestingafélagið Lansdowne Partners hefur selt meirihluta eignarhlutar síns í TM, eða um 666 milljónir af 1.236 á dagslokagengi dagsins í dag. Eftir söluna á fjárfestingafélagið 2,07% hlut í tryggingafélaginu.

Viðskiptin áttu sér stað á föstudag, og fólu í sér sölu 18,7 milljón hluta af þeim 34,7 sem félagið átti, eða um 54% eignarhlutar félagsins.

Heildarvelta með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 1,3 milljörðum króna í dag og úrvalsvísitalan lækkaði um 0,79%. Ekkert félag hækkaði í viðskiptum dagsins, en mest lækkuðu bréf Eikar um 2,23% í 54 milljón króna viðskiptum.

Icelandair lækkaði um 1,93% í 161 milljón króna viðskiptum og TM um 1,25% í 75 milljónum.

Mest velta var með bréf Festar, sem lækkuðu um 0,69% í 168 milljón króna viðskiptum. Þar næst kom Icelandair, og þriðja sætið vermdu bréf Símans með 1,11% lækkun í 98 milljón króna viðskiptum.