Hæstiréttur dæmdi í dag í máli sem varðaði lánssamning upp á 60 þúsund dali, um 7,8 milljónir króna. Samið var um að lántaki fengi lánað 60 þúsund dali í júlí 2009 og myndi greiða til baka 124 þúsund bandaríkjadali, um 16,2 milljónir króna ekki síðar en þremur vikum seinna. Ef lánið yrði ekki greitt til baka á réttum tíma myndu 10% dráttarvextir leggjast á lánið á hverjum degi. Í dæmi Hæstaréttar segir:

„Nánar sagði um það í 6. gr. samningsins sjálfs að endurgreiddi lántaki ekki „endurgreiðsluupphæðina á endurgreiðsludegi eins og kveðið er á um í fylgiskjali 1 munu 10% dráttarvextir á heildarskuldina leggjast daglega við endurgreiðsluupphæðina ásamt uppsöfnuðum dráttarvöxtum. Greiðslu má inna af hendi fyrir 10. virka dag mánaðar eftir endurgreiðslugjaldaga.““

Þegar skuldin komst til héraðsdóms var krafist 321.624 bandaríkjadala, eða rúmlega 42,1 milljón króna. Þegar lögmaður var spurður hvaða ástæður hefðu legið að baki endurgreiðslufjárhæðinni svaraði hann einungis að um þetta hefði verið samið þeirra á milli.

Hæstiréttur segir þrátt fyrir samningsfrelsi vaxtalaga séu þó tilteknar takmarkanir á þeim heimildum. Hæstiréttur segir að í ljósi atvika málsins og málflutnings fyrir dómi hafi ekki verið sýnt fram á að lánsamningurinn geti með nokkru móti rúmast innan þess frelsis til samningsgerðar um vexti og annað endurgjald sem lög nr. 38/2001 heimila.

Hæstiréttur sagði því vextir samkvæmt lánsamningi væru óheimilir en dæmdi lántaka til að greiða til baka upphaflegu lánsfjárhæð, 60.000 dali auk dráttarvaxta.