Ekkert bendir til þess að lánsfjárkreppan sé að minnka, samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Í nýjustu skýrslu sjóðsins um stöðugleika alþjóðlegs fjármálakerfis segir að lækkandi húsnæðisverð og minnkandi hagvöxtur geri aðstæðurnar verri.

Í skýrslu sjóðsins segir einnig að vaxtarríki á borð við Kína gætu einnig fundið fyrir kreppunni í auknum mæli í framtíðinni.

Í frétt BBC segir að nú sé um eitt ár frá því að lánsfjárkreppan kom til sögunnar, en það var í ágúst 2007.

Í apríl á þessu ári spáði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því að bankar og aðrar fjármálastofnanir myndu tapa 1 billjón Bandaríkjadala í heildina á lánsfjárkreppunni, þegar veðlánatryggðar eignir misstu verðgildi sitt. Sjóðurinn heldur sig við þá spá sína.

Bankar hafa þegar afskrifað eignir að andvirði tæplega 500 milljarða dala. Þeir hafa hins vegar aðeins getað aflað sér fjármagns sem nemur tveimur þriðju hlutum af þeirri upphæð, og vegna þess þurfa þeir að takmarka lánveitingar frekar, að sögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.