Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard and Poor’s (S&P) hefur hækkað lang- og skammtíma lánshæfiseinkunnir Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka. Þetta kemur fram í tilkynningum frá bönkunum.

Í mati S&P um Landsbankann kemur fram að áfram hafi dregið úr ójafnvægi í íslensku efnahagslífi og að búast megi við auknum efnahagslegum stöðugleika næstu árin. Hækkun á lánshæfismati bankans endurspegli þá skoðun S&P að rekstarumhverfi íslenska bankakerfisins hafi styrkst, áhætta minnkað og að búast megi við minni afskriftum.

Þá segir einnig að lánshæfiseinkunn Landsbankans endurspegli sterka eiginfjárstöðu bankans, góða afkomu og fullnægjandi áhættustöðu. Það er mat S&P að lausafjárstaða bankans sé sterk bæði í krónum og erlendum gjaldeyri. Þá endurspeglar lánshæfismatið einnig þær væntingar fyrirtækisins að efnahagsreikningur Landsbankans haldist áfram sterkur.

„Nýtt mat Standard & Poor’s er ánægjuleg tíðindi og í takt við væntingar, m.a. í kjölfar fréttar um bætta lánshæfiseinkunn ríkisins. Matið sýnir að staða bankans er sterk og að hann sé á réttri leið. Það að Landsbankinn sé nú kominn upp í fjárfestingarflokk eykur traust til bankans á mörkuðum og styður við fjármögnun hans í nánustu framtíð, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Endurspeglar sterka stöðu Arion banka

Í tilkynningu Arion banka segir að nýja lánshæfismatið setji bankann í fjárfestingarflokk og það endurspegli stöðu bankans á innlendum markaði og sterka stöðu hvað varði eigið fé, lausafé og afkomu.

„Það er mikilvægt fyrir okkur og okkar viðskiptavini að bankinn skuli vera kominn í fjárfestingarflokk. Bankinn hefur haft góðan aðgang að erlendri fjármögnun eins og 300 milljóna evra og 500 milljóna norskra króna skuldabréfaútgáfur bankans fyrr á þessu ári bera vott um. Hins vegar stækkar hópur mögulegra fjárfesta til muna nú þegar bankinn er kominn í fjárfestingarflokk. Þannig getum við styrkt fjármögnun bankans enn frekar með það að markmiði að lækka fjármögnunarkostnað. Aukið aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum gerir okkur betur í stakk búin til þess að þjónusta viðskiptavini okkar sem þurfa á erlendri fjármögnun að halda,“ segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

Í takti við væntingar

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir niðurstöðuna í takti við væntingar bankans í ljósi hækkunar á lánshæfismati íslenska ríkisins.

„Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu á þeim árangri sem hefur náðst, bæði í íslensku efnahagslífi sem og í endurskipulagningu lánasafns bankans. Lánshæfismat í fjárfestingarflokk frá Fitch og nú Standard & Poor's mun hafa jákvæð áhrif á aðgengi okkar að erlendu fjármagni og gera okkur kleift þjónusta viðskiptavini okkar enn betur og uppfylla framtíðarsýn bankans um að vera númer 1 í þjónustu."

S&P hækkaði einnig matseinkunn Tryggingamiðstöðvarinnar nú í morgun.