Í greiningu Standard & Poor's fyrir lækkun á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar kemur fram að matsfyrirtækið lækkaði lánshæfiseinkunn í innlendum skuldbindingum ríkisins um einn flokk. Lækkun á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar endurspegli það að nokkru leyti.

S&P greinir Landsvirkjun með tvennum hætti; annars vegar hvernig fyfirtækið getur staðið eitt og sér við skuldbindingar sínar og hins vegar getu og vilja ríkisins til að hlaupa tímabundið undir bagga ef Landsvirkjun lendir í greiðsluvandræðum.

Gott er að hafa í huga að Landsvirkjun gerir upp í bandaríkjadölum, lánasafnið er að mestu í erlendum gjaldeyri sem og tekjur. Skuldbindingar félagsins og greiðsluflæði er því að lang mestu leyti í erlendum gjaldeyri og fyrirtækið háð erlendum lánsfjármörkuðum. Lánshæfiseinkunn í erlendum skuldbindingum ríkisins hjá S&P hélst óbreytt.

Áhættan tengd áliðnaði

Þegar Standard & Poor's greinir Landsvirkjun óháð ríkisábyrgðinni kemur fram að þeir hafa áhyggjur af skuldastöðu fyrirtækisins og veikum sjóðsstreymishlutföllum (weak cash flow coverage ratio). Áhættan í rekstrinum sé einnig nokkur vegna fábrotins hóps viðskiptavina. Áhættan í rekstrinum tengist aðallega áliðnaðinu og hagnaður sé ófullnægjandi.

Ef Landsvirkjun nyti ekki ríkisábyrgðar þá væri lánshæfiseinkunn fyrirtækisins B+ (einum flokki neðar en nýjasta lánshæfismatið sem er BB). Ríkisábyrgðin ýtir því Landsvirkjun upp um einn flokk og kemur fram að „mjög líklegt" sé að ríkið hlaupi undir bagga lendi fyrirtækið í greiðsluerfiðleikum.