Lánshæfisfyrirtækið Fitch Ratings hefur gefið Orkuveitu Reykjavíkur einkunnina BB- með stöðugum horfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni. Grunneinkunn Orkuveitunnar í matinu er tveimur þrepum hærri en hún fékk frá lánshæfisfyrirtækinu Moody‘s í desember síðastliðnum. Þetta er í fyrsta sinn að lánshæfi Orkuveitunnar er metið af Fitch.

Í matinu eru dregnir fram jákvæðir og neikvæðir þættir í rekstri Orkuveitunnar. Neikvæðir þættir eru m.a. sú staðreynd að reksturinn er bundinn við íslenskt umhverfi og að hann sé of háður sveiflum á gjaldeyris- og álmarkaði. Það sem vegur upp á móti þeim þáttum er annarsvegar það að fyrirtækið hefur traustar tekjur sem standa vel undir skuldbindingum og að meirihluti þessara tekna er af sérleyfisstarfsemi.

Í tilkynningunni segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar að það sé mjög hvetjandi að sjá í þessu mati að traust samvinna eigenda, stjórnar og starfsfólks Orkuveitunnar veki athygli. „Hún hefur skilað bættri fjárhagsstöðu sem eftir er tekið. Fitch dregur fram hvernig brugðist hefur verið við fjárhagslegum áhættuþáttum með góðum áhættuvörnum en bendir líka á aðra þætti, allt frá gjaldskrám til gjaldeyrishafta. Það er mitt mat að sú samstaða sem skapast hefur meðal eigenda Orkuveitunnar um stefnu fyrirtækisins, þar sem aðaláherslan er á áreiðanlega grunnþjónustu við íbúa, hafi dregið verulega úr óvissu í rekstri og rekstrarumhverfi Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir Bjarni.