Lánshæfisfyrirtækið Moody's Investor Service tilkynnti fyrr í dag að ákveðið hefði verið að hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um tvö þrep, úr Baa2 í A3, með stöðugum horfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu . Tveggja þrepa hækkun í einu lagi er sjaldgæf en að sögn Moody's endurspeglar hún hraðan framgang í endurreisn Íslands eftir bankahrunið.

Moody's tilkynnti fyrr í sumar að Baa2 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs yrði endurmetin með hækkun í huga. Kom þar fram að stjórnvöld hefðu náð talsverðum árangri í að snúa við efnahagslífinu, fjármálakerfinu og opinberum fjármálum.

Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri ríkissjóðs undanfarin ár og hefur tekist að vinda ofan af miklum hallarekstri sem fylgdi bankahruninu. Ríkissjóður er nú rekinn með umtalsverðum afgangi og nemur hann í ár um 3% af frumjöfnuði. Brúttóskuldir ríkissjóðs hafa lækkað úr 85% árið 2011 niður í um 50% í ár. Er áætlað að brúttóskuldastaðan muni lækka niður í 38% á næstu þremur árum.

Ljóst er að samkomulag við slitabú föllnu bankanna voru mikil innspýting fyrir opinber fjármál, en fjármunaeignirnar sem þaðan komu verða samkvæmt lögum nýttar til að lækka beinar skuldir og lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs.