Ekki er útilokað að matsfyrirtækið Fitch lækki lánshæfiseinkunnirt Bandaríkjanna. Ed Parker, framkvæmdastjóri hjá Fitch, sagði á ráðstefnu matsfyrirtækisins í New York í gær stjórnvöld verða að leggja fram trúverðuga áætlun fjárlaga í kringum næstu forsetakosningar í haust. Líti hún ekki dagsins ljós eftir kosningarnar eru líkur á að einkunnirnar verði lækkaðar.

Fitch gaf Bandaríkjunum lánshæfiseinkunnina AAA eftir áramótin en með neikvæðum horfum. Í bókum Fitch eru sömuleiðis horfur neikvæðar í Bretlandi og í Frakklandi sökum skuldaklafa ríkjanna sem hlutfall af landsframleiðslu.

„Það eru takmörk fyrir því hversu skuldir ríkjanna geta aukist,“ sagði Parker og lagði áherslu á að fari svo að Grikkir hætti evrusamstarfinu þá verði lánshæfiseinkunnir landanna endurskoðaðar til hins verra. Einkunnir Þýskalands, Ítalíu, Portúgal og Kýpur verði sömuleiðis endurmetnar og lækkaðar, að því er fram kemur í frétt Dow Jones-fréttaveitunnar um málið.

Fitch lækkaði lánshæfiseinkunnir Spánar í gær úr A í BBB með neikvæðum horfum og er landið nú einu þrepi frá því að lenda í ruslflokki.