Greiningar- og matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur gert breytingu á lánshæfishorfum kínverska ríkisins. Horfurnar voru áður metnar stöðugar, en nú teljast þær neikvæðar. Frá þessu er sagt á vef Wall Street Journal.

Þetta þýðir þó ekki að lánshæfismat ríkisins sjálft hafi lækkað, en það situr enn í AA- hjá S&P. Breytingin felst í því að S&P gera ráð fyrir því að lánshæfismatið muni að líkindum versna með tímanum.

Þá hefur Moody’s, sem starfar í sama bransa og S&P, einnig lækkað horfur sínar fyrir ríkið - en félögin hafa þá sömu greiningu á kínverska ríkinu. Viðskiptablaðið greindi frá þessu fyrr í mánuðinum.

Í skýrslu S&P segir að efnahagsleg og fjármálaleg áhætta kínverska ríkisins hafi aukist verulega á síðustu misserum. Þá sé skuldsetningarstefna ríkisins hættuleg leið til hagvaxtar.