*

föstudagur, 18. október 2019
Erlent 1. maí 2013 13:19

Lánshæfislækkunin virðist hafa komið á óvart

Slóvenska ríkið var langt komið með að selja ríkisskuldabréf í dollurum þegar Moody's lækkaði lánshæfiseinkunina.

Ritstjórn

Ákvörðun matsfyrirtækisins Moody's að lækka lánshæfiseinkunn Slóveníu um tvö stig niður í ruslflokk virðist hafa komið slóvenskum yfirvöldum í opna skjöldu. Í frétt Wall Street Journal er greint frá því að Slóvenía hafi verið við það að ganga frá sölu á 5 og 10 ára dollaraskuldabréfum þegar hætt var við útgáfuna seint á mánudag. Klukkutíma síðar greindi Moody's frá lækkuninni.

Slóvenska ríkisstjórnin hefur sagst ætla að gefa skuldabréfin út, en í ljósi lækkunarinnar mun ávöxtunarkrafan væntanlega verða mun hærri en ella og fjárfestar, sem aðeins mega fjárfesta í eignum í fjárfestingarflokki, munu ekki geta tekið þátt í útboðinu. Tíu ára slóvensk ríkisskuldabréf voru með 5,847% ávöxtunarkröfu í gær samanborið við 5,69% kröfu á mánudag. Áður en hætt var við útboðið höfðu borist kauptilboð upp á um sex milljarða dala, hefur WSJ eftir innanbúðarfólki, en markmiðið var að selja skuldabréf fyrir þrjá milljarða dala.

Ástæðurnar sem Moody's gaf fyrir ákvörðun sinni var léleg lausafjárstaða slóvenskra banka og versnandi staða ríkissjóðs. Hagfræðingur franska bankans Credit Agricole hefur sagt að Slóvenía muni að öllum líkindum þurfa á fjárhagsaðstoð að halda frá Evrópusambandinu og Alþjóðgjaldeyrissjóðnum og gæti fjárhæðin numið allt að 20% af vergri landsframleiðslu Slóveníu. Í ljósi þess að VLF í Slóveníu var um 35,5 milljarðar evra árið 2012 gæti aðstoðin því þurft að nema um sjö milljörðum evra.