Lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefur lækkað mat 28 spænskra banka. Í sumum tilvikum lækka bankarnir um allt að 4 stig en að auki voru settar neikvæðar horfur á einkunnir allra bankanna.

Lánshæfismat spænska ríkisins var einnig lækkað fyrir stuttu og aðeins örfáir dagar eru liðnir síðan spænsk yfirvöld óskuðu eftir 62 milljarða evra aðstoð til að styðja bankakerfið í landinu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

Lækkunin gerir bönkunum eðli málsins samkvæmt erfiðara um vik í fjármögnun. Evrópusambandið hefur þó þegar í síðustu viku samþykkt 100 milljarða evra neyðarlán til Spánar .