Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs. Ný einkunn sjóðsins er BB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birtist á vef S&P við lokun markaða síðdegis í gær.

Helstu ástæðu ákvörðunarinnar segir matsfyrirtækið vera þá að fjárhagsleg afkoma sjóðsins á síðasta ári hafi farið verulega fram úr fyrri væntingum, en sjóðurinn hafi nú verið rekinn með afgangi í tvö ár. Þá telur S&P að þau skref sem stigin hafa verið til að draga úr vanda vegna uppgreiðslna eldri húsnæðislána muni leiða til bættrar afkomu Íbúðalánasjóðs á næstu árum og skila honum í sterkari stöðu en fyrri spár matsfyrirtækisins höfðu gert ráð fyrir.

Í fréttatilkynningunni segist matsfyrirtækið spá bættri afkomu Íbúðalánasjóðs. Batnandi efnahagslíf á Íslandi hafi haft jákvæðari áhrif á efnahag sjóðsins en búist var við. S&P telur allar líkur á að íslenska ríkið muni standa á bakvið við skuldbindingar sjóðsins, ef með þurfi, en mun minni líkur séu nú en áður á því að ríkið þurfi að leggja sjóðnum til fé á næstu árum. Ekki hafi verið um neinar slíkar innspýtingar frá ríkissjóði að ræða frá árinu 2014. Lánasafn sjóðsins sé komið í mun betra horf, ekki síst vegna bætts efnahagsástands á Íslandi.