*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 13. janúar 2017 17:16

Lánshæfismat Íslands í A flokk

Matsfyrirtækið Standard & Poors hækkaði lánshæfismat ríkissjóðs í A- úr BBB+. Meginástæða hækkunarinnar er sterkari ytri staða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Matsfyrirtækið Standard & Poors hækkaði í dag lánshæfismat fyrir ríkissjóð í A- úr BBB+, horfur eru metnar stöðugar. Meginástæða hækkunarinnar er sterkari ytri staða. Frá þessu er greint í frétt á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

S&P segja að sterk erlend staða Íslands sé einn af lykilþáttunum í hækkun lánshæfismatsins. „Mikill afgangur hefur verið af viðskiptajöfnuði og óskuldsettur hluti gjaldeyrisforðans hefur vaxið verulega síðasta árið. Greiðslujöfnuður Íslands hefur farið fram úr væntingum S&P. Þá vega mikill hagvöxtur, lækkun skuldahlutfalls og sterk staða ríkisfjármála, einnig þungt í hækkun matsins. Einnig bendir lánshæfisfyrirtækið á að Ísland er með háar þjóðartekjur á mann,“ er tekið fram í fréttinni.

Lánshæfismat ríkissjóðs gæti hækkað enn frekar ef fjármagnshöft verða losuð að fullu án þess að fjármálalegum óstöugleika verði ógnað. Lánshæfismatið gæti einnig hækkað ef að skuldahlutfall hins opinbera lækkar meira.

„Lánshæfismatið gæti lækkað ef nýlegar launahækkanir leiða til ofhitnunar hagkerfisins sem hafa myndi aukna áhættu í för með sér fyrir peninga- og ríkisfjármál og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Að sama skapi gæti frekari losun fjármagnshafta með óskipulegum hætti sem hefði neikvæð áhrif á fjármálakerfið, haft áhrif til lækkunar.

Fyrirtækið hækkaði síðast lánshæfismat ríkissjóðs í janúar 2016. Ríkissjóður er nú metinn í A flokki hjá bæði Moody´s og S&P, en ríkissjóður var síðast metinn í A flokki hjá S&P í október 2008,“ er að lokum tekið fram í frétt fjármálaráðuneytisins.