Nokkurra breytinga gæti verið að vænta á næstu mánuðum á lánshæfiseinkunum bankanna og ríkissjóðs. Í Morgunkorni Glitnis segir að alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s sé með lánshæfiseinkunnir viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis til endurskoðunar og þá hefur Standard & Poor´s haft lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á neikvæðum horfum frá því í lok nóvember. Fitch Ratings, þriðja stóra alþjóðlega lánshæfisfyrirtækið sem metur íslensku bankanna og ríkissjóð er hinsvegar visst í sinni sök og eru allar íslenskar einkunnir stöðugar í þeirra bókum. Þá bættist japanska lánshæfismatsfyrirtækið R&I Rating í hóp þeirra fyrirtækja sem greina Ísland og íslensk fyrirtæki síðasta sumar. Horfur R&I fyrir ríkissjóð og Kaupþing banka, sem eru einu íslensku aðilarnir sem R& I greinir, eru stöðugar.

Niðurstöðu S&P að vænta með vorinu Í tilkynningu Moody's frá því í síðustu viku kemur fram að matsfyrirtækið ætlar að skila niðurstöðu vegna endurskoðun lánshæfismats íslensku bankanna innan mánaðar. Greining Glitnis telur líklegt að bíða þurfi niðurstöðu S&P lengur, en á árinu 2006 leið hálft ár frá því að horfum fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs var breytt í neikvæðar þar til einkunnin var lækkuð. Miðað við það gæti niðurstaðan nú komið í ljós með vorinu.

Óljós áhrif breytinga Líklegt er að ef til þess kemur að Moody's breyti lánshæfismati bankanna í kjölfar endurskoðunar verði áhrif þess tiltölulega takmörkuð að því er segir í Morgunkorninu. Því veldur minnkandi trúverðugleiki Moody´s í kjölfar hringlandaháttar með lánshæfismat undanfarið ár og vangetu til að bera kennsl á raunverulega áhættu skuldabréfavafninga tengt húsnæðislánum í Bandaríkjunum. Auk þess hefur álag á skuldatryggingar bankanna farið fram úr því sem eðlilegt getur talist í samræmi við lánshæfismat undanfarna mánuði. Þetta bendir til þess að tengslin milli lánshæfismats og skoðana markaðarins séu að einhverju leyti rofin. Til skamms tíma yrðu áhrif af mögulegri lækkun á lánshæfiseinkunn S&P einnig takmörkuð, þar eð lánsfjárþörf ríkissjóðs er lítil um þessar mundir. Áhrif breytinga af þessu tagi yrðu þó án efa merkjanleg á markaði í því árferði sem nú ríkir þar sem markaðir eru viðkvæmir fyrir fréttum og því líklegri en ella til að bregðast við tíðindum af þessu tagi, jákvæðum og neikvæðum.