Bandarísk stjórnvöld standa frammi fyrir þeim möguleika að þurfa að veita fjárhagslegan stuðning til húsnæðislánasjóða, sem eru undir verndarvæng ríkisins og jafnframt ráðandi aðilar á fasteignamarkaðnum þar í landi, en slíkur stuðningur gæti orðið til þess að ógna Aaa lánshæfieinkunn ríkissjóðs.

Frá þessu hefur alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) greint frá.

Reynist samdráttarskeiðið í bandaríska hagkerfinu langvinnt, segir S&P að hugsanlegur kostnaður ríkisins við að styðja við bakið á hálf-opinberum fyrirtækjum á borð við húsnæðislánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac, gæti numið allt að 10% af vergri landsframleiðslu.

Þrátt fyrir að sjóðirnir njóti ekki beinna fjárframlaga ríkisins er það ríkjandi skoðun að Bandaríkjastjórn myndi koma fyrirtækjunum til bjargar ef þess þyrfti, og því sé rétt að tala um einhvers konar óbeina ábyrgð ríkissjóðs.

Af þeim sökum geta sjóðirnir sótt sér fjármagn á mjög lágum vaxtakjörum gegn Aaa lánshæfiseinkunn, þrátt fyrir að vera mjög skuldsettir.