Lánshæfisfyrirtækið Moody‘s tilkynnti í dag um að það hefði tekið lánshæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til athugunar með hugsanlega lækkun í huga en einkunn OR er Aaa2.

Í tilkynningu Moody´s kemur fram að athugunin sé gerð vegna versnandi fjárhagsstöðu OR samfara hækkun skulda en þær ku vera komnar yfir þau mörk sem Aa2 einkunnin miðist við.

Þá segir að í athuguninni verði einkum litið til nýlegra yfirtaka og kaupa OR, aukins fjármagnskostnaðar og neikvæðrar gengishreyfinga.

Einnig kemur fram að horft verði til þess hversu fljótt OR geti bætt fjárhagsstöðu sína og í því efni verði líka tekið mið af ójafnvægi í íslenskum gengis- og efnahagsmálum.