Standard & Poor´s hefur lækkað langtíma lánshæfiseinkunn fjárfestingabankanna Morgan Stanley, Merrill Lynch og Lehman Brothers um eitt þrep. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans í dag.

Bankarnir eru þrír af fjórum stærstu fjárfestingabankanum Bandaríkjanna. Stærstur er Goldman Sachs, en lánshæfismat hans hélst óbreytt. Einkunn Morgan Stanley lækkaði úr AA í A+ en hinna tveggja úr A+ í A. Breyttar einkunnir taka mið af slæmu útliti fyrir fjárfestingabanka á komandi mánuðum og möguleika á frekari afskriftum, samkvæmt Vegvísi Landsbankans.

Í skýrslu sem fylgdi ákvörðun Standard & Poor´s segir að afskriftir bankanna komi ekki til með að verða af sömu stærðargráðu og að undanförnu, auk þess skýrsluhöfundar telja það versta vera yfirstaðið í lánsfjárkreppunni.