Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's hefur lækkað lánshæfismat íslenska ríkisins um tvo flokka samkvæmt frétt Bloomberg. Lækkar einkunn ríkissjóðs úr Baa1 í Baa3. Horfur eru sagðar stöðugar. Lækki lánshæfismatið um einn flokk í viðbót flokkast ríkistryggð skuldabréf sem „rusl“ bréf.

Einkunnagjöf Moody's er í nokkrum flokkum og táknuð með bók- og tölustöfum.

Röð einkunna er: Aaa, Aa1, Aa2, Aa3, A1, A2, A3, Baa1, Baa2, Baa3

Afgreiðsla á endurskoðun efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum virðist ekki hafa komið í veg fyrir lækkun lánshæfismatsins, eins og búist var við. Einnig var talað um það að lánafyrirgreiðsla AGS og samkomulag við Breta og Hollendinga vegna Icesave væri forsenda þess að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs yrði ekki lækkuð. Það hefur ekki gengið eftir hvað Moody's varðar.

Hins vegar verður að hafa í huga að á meðan ríkissjóður er ekki að sækja sér fé á almennum lánamarkaði skiptir lánshæfismat minna máli. Þetta hefur þó áhrif á ríkisfyrirtæki, eins og Landsvirkjun, ef þau þurfa að fjármagna ný verkefni.