Útlán og eignarleigusamningar ýmissa lánafyrirtækja voru 758 milljarða króna í lok árs 2007 og höfðu aukist í desember um 13 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Aukning þeirra á árinu 2007 var rúmir 9 milljarðar króna, en þess ber að gæta varðandi þá tölu að í lok ágúst fékk Straumur viðskiptabanka-leyfi og færðist við það úr lánafyrirtækjum yfir í bankakerfi.

Útlán lánafyrirtækja til heimila voru tæpir 493 milljarðar króna í lok árs, aukning ársins var 70 milljarða króna. Útgefin verðbréf ýmissa lánafyrirtækja voru 638 milljarða króna í lok árs og höfðu aukist á árinu um 35 milljarða króna samanborið við tæpa 60 milljarða króna á árinu 2006. Til flokksins „ýmis lánafyrirtæki” teljast Íbúðalánasjóður, fjárfestingarbankar, eignarleigur, greiðslukortafyrirtæki og fjárfestingarlánasjóðir.