Þrátt fyrir að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hafi lækkað talsvert munu nýir lántakendur hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS) ekki njóta bættra lánskjara þar sem hann hefur tilkynnt um óbreytta útlánavexti. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Sjötta útboð íbúðabréfa í ár var haldið í gær og segir greiningin að ÍLS geti verið sáttur við niðurstöðuna. Þátttakan var minni en í síðustu útboðum en ávöxtunarkrafan mun lægri, sem er í takt við þróunina á markaði. „Þannig var tilboðum tekið í HFF24 fyrir 1,3 ma.kr. á 3,11% ávöxtunarkröfu, fyrir 1,6 milljarða króna á kröfunni 3,34% í HFF34 og fyrir 2,4 milljarða króna á 3,39% kröfu í HFF44. ÍLS hafði áætlað að gefa út ný íbúðabréf fyrir 42-50 ma.kr. á yfirstandandi ári og hefur nú gefið út bréf fyrir tæplega 40 ma.kr. af þeirri fjárhæð.“

Óbreyttir vextir

Vextir nýrra íbúðalána eru eftir sem áður 4,5% fyrir lán með uppgreiðsluákvæði og 5% fyrir lán án uppgreiðsluákvæðis. Greiningin segir að sú ákvörðun ÍLS að lækka ekki útlánavexti skjóti nokkuð skökku við í ljósi þess að íbúðamarkaði sé enn í talsverði lægð.

„Þó kemur fram í tilkynningu ÍLS að vaxtaálag sjóðsins á útlán sé óbreytt frá síðasta útboði. Þannig er vaxtaálag vegna rekstrar enn 0,45%, sama álag er vegna útlánaáhættu og álag vegna uppgreiðsluáhættu er 0,50%. Það að ÍLS lækki ekki útlánavexti skýtur nokkuð skökku við í ljósi þess að íbúðamarkaður er enn í talverðri lægð nú um stundir og mætti ætla að opinberir aðilar myndu leitast við að smyrja hjól hans með sem hagstæðustum kjörum á íbúðalánum í ljósi þess að langtíma verðtryggðir vextir á skuldabréfamarkaði hafa lækkað töluvert frá miðju síðasta ári. Á hitt er hins vegar að líta að staða sjóðsins er þröng, eiginfjárhlutfall hans er lægra en stenst til lengri tíma litið og hætta á að afskriftir íbúðalána muni aukast töluvert á næstunni,“ segir í morgunkorni.