„Það er afar brýnt að þessi mál fari að klárast,“ segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra um endurútreikning gengislána. Hún segir að velferðarráðuneytið og Umboðsmaður skuldara hafi að undanförnu fengið mjög mikið af erindum frá lánþegum sem tengjast gengislánum og endurútreikningi þeirra.

Til að fá skýrari sýn á stöðuna hafi hún fundað með Umboðsmanni skuldara, Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu og farið yfir málið. Eygló segir að á fundinum hafi verið rædd fjölmörg atriði varðandi endurútreikning sem séu óásættanleg. Á ríkisstjórnarfundi í morgun upplýsti Eygló svo aðra ráðherra um stöðuna, en málefni lánastofnanna heyra að miklu leyti undir fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar og neytendaréttur og dómskerfið undir innanríkisráðherra hins vegar.

„Ég ákváð að fara með minnisblað fyrir ríkisstjórnina og kynna ábendingar að næstu skrefum til að vinna úr þeirri stöðu sem ég og Umboðsmaður skuldara teljum að sé óásættanleg,“ segir Eygló í samtali við VB.is.

Eygló kveðst vera ánægð með það það hversu jákvæð viðbrögð hún fékk frá öðrum ráðherrum og hversu mikill samhljómur var um það að ástandið er ekki viðundandi eins og það er núna.