Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að samþykkt verði frumvarp um heimild ríkissjóðs til allt að 500 milljarða lántöku á árinu. Búast má við því að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi í dag. Efnahags - og skattanefnd þingsins mælir einnig með samþykkt frumvarpsins. Áhrif lántökunnar ættu að koma fram í auknu trausti á íslenskt efnahagskerfi.

Samkvæmt frumvarpinu er annars vegar gert ráð fyrir að nýta megi heimildina til töku erlends láns í því augnamiði að styrkja gjaldeyrisforðann, hins vegar að nýta megi heimildina til aukinnar útgáfu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði í þeim tilgangi að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í fjárlaganefnd, skilaði séráliti um frumvarpið. Hann segir þar meðal annars að stjórnvöld hafi ekki gert nægilega grein fyrir ástæðum lántökum sem og framhaldinu.

Lánakjör óljós

Efnahags- og skattanefnd segir í nefndaráliti sínu að áhrif lántökunnar ættu að koma fram í auknu trausti á íslenskt efnahagskerfi auk þess að styrkja lánshæfismat ríkissjóðs og innlendra fjármálastofnana. „Sterk staða ríkissjóðs og gjaldeyrisskiptasamningar sem Seðlabanki Íslands hefur nýlega gert við seðlabanka í Danmörku, Noregi og Svíþjóð greiða fyrir erlendri lántöku. Gangi hún eftir mun lánsfjárhæðin verða endurlánuð Seðlabanka Íslands sem ávaxta mun féð erlendis á tryggan hátt þannig að féð sé ætíð laust til ráðstöfunar,“ segir í álitinu.

„Upplýst var í nefndinni að ef lántökuheimildin yrði alfarið nýtt til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans mundi hann ráða yfir nærri 900 milljarða kr. forða að meðtöldum framangreindum gjaldeyrisskiptasamningum,“ segir einnig í álitinu.

„Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að unnið er að undirbúningi lántöku ríkissjóðs í formi skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum. Ekki liggur fyrir hvenær eða að hvaða marki heimildin verður nýtt innan lands eða erlendis en í fyrstu verður hún tæpast nýtt nema að hluta. Erfitt er að geta sér til um hvaða lánakjör ríkissjóði munu bjóðast enda háð aðstæðum á mörkuðum á hverjum tíma,“ segir enn fremur í áliti efnahags- og skattanefndar þingsins.