Yfirlýsingar helstu leiðtoga Evrópusambandsins ásamt Mario Draghi, bankastjóra Evrópska seðlabankans, um að allt verði gert til að halda evrusamstarfinu gangandi virðast ætla að skila sínu.

Ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréf Spánar hefur nú lækkað niður í 6,5%. Ávöxtunarkrafa á slík bréf hefur aldrei verið hærri en í síðustu viku þegar hún náði hæst í 7,5%. Sambærileg krafa á ítölsk ríkisskuldabréf er nú 5,96%. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag. Enn er þó rúmlega 5% vaxtamunur á spænskum og þýskum ríkisskuldabréfum svo langt er í land.

Forsvarsmenn bæði Ítalíu og Spánar hafa kvartað sáran undan of háum lántökukostnaði og eru þetta því góðar fregnir fyrir heimamenn sem vonast eftir áframhaldandi þróun í sömu átt.