Fjármálafyrirtæki hafa gefið eftir skuldir yfir einum milljarði króna hjá fimm sjávarútvegsfyrirtækjum. Alls nemur eftirgjöf skulda félaganna fimm um 12,8 milljörðum króna, eða 61% af heildarskuldum þeirra.

Þetta kemur fram í skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun og birt er á vefsíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Af fyrirtækjum sem fengið hafa afskrifaðar skuldir yfir milljarði, nemur eftirgjöf skulda 41 fyrirtækis um 336 milljörðum króna. Það eru um 73% af heildarskuldum þeirra.

Félögunum er skipt eftir tegund starfsemi. Sjávarútvegsfyrirtæki eru þau einu þar sem skuldum hefur aldrei verið breytt í hlutafé, þegar afskrftir hafa verið meiri en milljarður. Meðal fyrirtækja í verslun og þjónustu nemur hlutfallið 7%. Sama á við um fasteignafélög.

Mestar afskriftir hafa verið vegna sjö fjárfestingar- og eignarhaldsfélaga. Afskriftirnar nema rúmlega 200 milljörðum króna.