„Aðstæður hér á landi eru að mínu mati mjög óvenjulegar og skuldaleiðréttingin mun gefa okkur tækifæri til að gera einmitt það – fara úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð án þess að greiðslubyrði lána aukist verulega og tryggja að fólk hafi raunverulegt val um búsetuform,“ segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. Hún er í ítarlegu viðtali í DV í dag þegar sem hún fer yfir störf nýrrar ríkisstjórnar og hvernig þau snerta ráðuneyti hennar.

Eygló segir m.a. að ríkisstjórnin muni skipa sérfræðinganefnd um framkvæmd afnám verðtryggingar á neytendalán og breytingar á húsnæðislánamarkaðnum.

Eygló segir nauðsynlegt að fara yfir stöðu Íbúðalánasjóðs í ljósi þess að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi gert athugasemdir við ríkisábyrgðir á lánum hans.

„Það er forgangsefni hjá mér að fara yfir málefni hans. Ég hef verið talsmaður þess að það verði settar almennar leikreglur hvað varðar fasteignalán á Íslandi. Mér hefur þótt í gegnum tíðina að stjórnmálamenn hafi verið allt of uppteknir við að búa til ramma í kringum Íbúðalánasjóð. Á meðan hafa aðrir lánveitendur á íbúðamarkaði hegðað sér eins og þeir séu í villta vestrinu. Svo hafa gilt enn aðrar reglur hjá lífeyrissjóðunum, sér í lagi þegar kemur að fólki sem hefur lent í greiðsluerfiðleikum og hefur fengið lán hjá sjóðunum. Ég tel að það sé brýnt að það verði sett ný heildarlög um fasteignalán og þau gildi fyrir alla sem veita lán til kaupa á íbúðarhúsnæði,“ segir hún.