Fjármálaráðherrar evruríkja afgreiddu ekki lán til Grikklands á fundi sínum í gær. Til stóð að afgreiða næstu fyrirgreiðslu að upphæð 8 milljarðar evra, samkvæmt björgunarpakka ESB og AGS.

Erlendir miðlar greina frá því í dag að nú þykir líklegt að stærra tapi verði velt yfir á skuldabréfaeigendur grískra bréfa. Áætlun frá júlí síðastliðnum gerir ráð fyrir að tap einkaaðila verði um 50 milljarðar, en eftir fund ráðherrana er búist við að það verði töluvert meira.

Ljóst er að Grikkland hefur ekki uppfyllt skilyrði um niðurskurð í rekstri hins opinbera. Markmið þessa árs náðust ekki og hafa ráðamenn evruríkja brugðist við með því að sameina markmið áranna 2011 og 2012.

Evrópskir hlutabréfamarkaðir hafa tekið illa í nýjar fréttir af stöðu Grikklands og nemur lækkun á helstu vísitölum á bilinu 2-3,5%