Lára Sigríður Haraldsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sútarans ehf. sem rekur Port 9 vínbar. Lára Sigríður, sem jafnframt er gæða- og þjónustustjóri hjá RR hótel, mun áfram sinna störfum fyrir RR hótel sem er meirihlutaeigandi Sútarans.

Fráfarandi framkvæmdastjóri og meðeigandi Sútarans Gunnar Páll Rúnarsson, sem lætur nú af störfum, hefur ásamt starfsfólki Port 9 unnið að uppbyggingu og þróun vínbarsins síðustu misseri. Vínbarinn er jafnframt morgunverðarstaður fyrir viðskiptavini RR hótels og aðra gesti, þar sem boðið er uppá fimm rétta matseðil.

Í tilkynningu segir að Port 9 muni áfram leggja megin áherslu á góða og notalega stemningu þar sem boðið er uppá góð vín og létta smárétti að hætti vínsérfræðinga Port 9. Morgunverðarstaðurinn er jafnframt sagður hafa frá opnun verið í efstu sætum á Tripadvisor í flokki veitingastaða í Reykjavík.

Sú starfsemi hefur legið niðri um hríð vegna COVID-19 en mun opna á ný um leið og aðstæður leyfa. Stjórn Sútarans þakkar Gunnari Páli fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru.