Svo virðist sem Íslandsvinurinn Lars Christensen hafi ekki náð upp í nef sér af reiði í morgun þegar leiðtogar Evrópusambandsríkjanna kynntu aðgerðir sem eiga að slá á skuldakreppuna á evrusvæðinu.

Hann varð þekktur hér á landi vorið 2006 þegar hann vann hjá Danske bank og gaf út greiningu á íslensku efnahagslífi þar sem varað var við slæmum horfum. Hann kom hingað til lands í fyrra með nýja greiningu um efnahagslífið eftir kreppu. Hann vinnur nú á nýmarkaðssviði hjá Danske Markets, dótturfélagi Danske Bank.

Christensen skrifaði færslur inn á Facebook-síðu sína þegar útsendingin var í gangi og virðist hafa verið mikið niðri fyrir. Hann sagði m.a. þá sem styðji evruna sem sameiginlegan gjaldmiðil fífl og aðgerðirnar kalla hörmungar yfir þá sem búi í evruríkjunum. Danska krónan er fasttengd við evruna.

Hann skrifar m.a.:

„Hvað eru þeir eiginlega að hugsa? Við erum dauðadæmd. Ég trúi því ekki að nokkur maður styðji þessa vítisvél. Þau halda greinilega að sameiginleg löggjöf sé mikilvægasta málið. Fífl.“

Stofna nýja eftirlitsstofnun

Leiðtogarnir ESB-ríkjanna funduðu í þrettán klukkustundir í Brussel í gær og tilkynntu í morgun að m.a. verði björgunarsjóði evruríkjanna veitt heimild til að veita bönkum og fjármálafyrirtækjum fjármagn beint án milligöngu viðkomandi ríkis en það á m.a. að lækka lántökukostnað. Þá verður sértök eftirlitsstofnun á vegum myntbandalagsins sett á laggirnar og einhvers konar fjármálaráðuneyti Evrópusambandsins sem mun fylgjast með fjárlögum aðildarríkja. Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði á fundi í morgun þar sem niðurstaðan var kynnt að markmiðið sé að rjúfa vítahringinn sem varð til þegar bankar lentu í fjárhagsvanda og leiddi til frekari skuldsetningar einstakra evruríkja.

Lars Christensen fylgdist jafnframt með innleggi Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, leiðtogafundinum. Ekki lýst honum vel á það. „Þetta er ekkert að skána, hryllingur,“ skrifar hann.