„Hagvöxtur gæti orðið mestu á Íslandi á næsta ári. Það er ekki aðeins vegna þess að þið standið ykkur vel heldur líka vegna þess að illa gengur í öðrum löndum,“ að sögn Lars Christensen, forstöðumanns hjá greiningardeild Danske Bank. Hann kynnti nýja greiningu bankans á íslensku efnahagslífi á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í morgun.

Á meðal þess sem fram kemur í greiningunni er að hagvöxtur hér verði í kringum 2,2 til 2,9% á næstu þremur árum, sem verður yfir meðallagi í öðrum Evrópuríkjum sem fundið hafa illilega fyrir áhrifum fjárkreppunnar. Þá gerir bankinn ráð fyrir minnkandi verðbólguþrýstingi þótt verðbólga verði áfram yfir 2,5% verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Bankinn spáir því að verðbólga verði 3,7% á næsta ári, 3,1% árið 2013 og 2,6% árið 2014. Á sama tíma mun vinnumarkaðurinn styrkjast þótt atvinnuleysi verði um 5% árið 2014.

Þrjár greiningar á sex árum

Þetta er þriðja greining bankans. Sú fyrsta kom út á vordögum ársins 2006 þegar efnahagslífið var í uppsveiflu og var Lars og meðhöfundar hans að greiningunni harðlega gagnrýndi hér á landi enda voru þeir svartsýnir á þróun efnahagsmála hér. Þrátt fyrir mótbyrinn innanlands gekk hún eftir. Christensen snéri aftur í fyrra, heldur bjartsýnni.

Í erindi sínu í morgun sagði Christensen ró hafa færst yfir efnahagslífið hér og fjármálakerfið komið á ról á nýjan leik. Þá sagði hann að þótt vissulega séu enn gjaldeyrishöft til staða og aflandskrónuvandinn trufli þá líti efnahagslífið ágætlega út.

„Stöðugleiki er kominn á efnahagslífið. En miðað við önnur lönd er íslenskt efnahagslífi svolítið leiðinlegt,“ sagði Lars Christensen.