"Það er ánægjulegt að vera kominn til Íslands [...] vonandi vill einhver hlusta núna," sagði Lars Christensen, hagfræðingur greiningardeildar Danske Banke, er hann hóf ræðu sína á fundi VÍB. Hann sagði enn fremur að það gerðist alltaf eitthvað mikið þegar hann kæmi hingað starfs síns vegna. Árið 2006 vakti greining hans mikla athygli fyrir að spá fyrir um samdráttarskeið framundan vegna skýrra einkenna efnahagsbólu. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir þessa greiningu.

Í október 2008 var honum síðan boðið að taka þátt í fundi á vegum Seðlabanka Íslands. "Þið vitið öll hvað gerðist þá," sagði Lars.

Þá sagði hann að núna hefði íslenska þjóðin sagt nei við Breta og Hollendinga vegna Icesave. "Það gerist alltaf eitthvað stórt þegar ég er á Íslandi," sagði Lars.