"Íslendingar þurfa að hætta að vera pirraðir [...] vorið er að koma, verið jákvæð," sagði Lars Christensen hagfræðingur Danske Bank í lok erindis síns á fundi VÍB. Hann sagði Íslendinga hafa verið of upptekna af því að horfa í baksýnisspegilinn. Þeir þyrftu að horfa fram á veginn og vera bjartsýnir. Það væru ennþá erfiðleikar en að efnahagur landsins myndi batna hægt og bítandi.

Í skýrslu Danske Bank er horft til þess að landsframleiðsla aukist um 2,9% á þessu ári, 3,3% á árinu 2012 og 3,7% á árinu 2013.

Lars segir að atvinnuleysi verði áfram nokkuð hátt, milli 8 til 10%, en nokkur óvissa sé þó í spilunum. Einstakar fjárfestingar, einkum þegar kemur að virkjunum, geti haft mikil áhrif á atvinnuleysi til lækkunar.