Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, hefur gengið með liðið í gegnum sína bestu tíma í sögunni. Liðið á afar góða möguleika á því að fara á sitt fyrsta stórmót, EM 2016 í Frakklandi, og þá var liðið hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á HM í Brasilíu í fyrrasumar.

Lagerbäck hefur í gegnum tíðina gefið það í skyn að hann muni hætta í þjálfun eftir Evrópumótið. Frábært gengi Íslands og möguleikinn á að fara á fyrsta heimsmeistaramótið, í Rússlandi árið 2018, gæti þó mögulega fengið hann til að skipta um skoðun. Hann segist allavega halda möguleikanum opnum.

„Ég hreinlega veit það ekki. Ég er samningsbundinn fram yfir EM 2016 ef við komumst þangað og við höfum ekkert rætt um framtíðina, við sjáum bara hvað gerist. Ég segi alltaf varðandi framtíðina að ég loka engum dyrum, en ég er bara að einbeita mér að því að koma okkur á EM og veit ekki hvað gerist eftir það. Þegar maður eldist hugsar maður hvort maður vilji gera eitthvað annað, en eins og ég segi veit ég ekki hvað ég mun gera,“ segir Lars aðspurður hvort hægt sé að sannfæra hann um að halda áfram með landsliðið.

Hann er löngu orðinn að þjóðhetju á Íslandi og aðspurður hvort hægt sé að plata hann til að taka upp íslenskan ríkisborgararétt svarar hann:

„Ég var í Kristianstad á dögunum þar sem Elísabet Gunnarsdóttir er að þjálfa og hún sagði mér að hún væri með tvöfalt ríkisfang, þannig að það er greinilega hægt. En vegabréfið er ekki mikilvægt fyrir mig, ég mun alltaf líta á Ísland sem eitt af mínum heimalöndum. Ég hef virkilega notið tíma míns hérna og jafnvel áður en ég tók við landsliðinu leið mér alltaf vel þegar ég heimsótti Ísland, þetta er frábært land. Ísland verður alltaf hluti af mér og ég mun fylgjast vel með því sem er í gangi þar.“

Ítarlegt viðtal við Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, má finna í Viðskiptablaði dagsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .